20.6.2008 | 21:02
Útskrifuð
Já ég útskrifaðist sem sagt síðastliðna helgi. Útskriftin fór fram í Laugardalshöll í sól og falleg veðri. Um var að ræða fjölmennustu útskrift í sögu Háskóla Ísland og voru útskrifaðir stúdentar tæplega 1100 talsins, hvorki meira né minna. Það tók því langan tíma að útskrifa allan þennan skara, síðan tók við hátíðleg ræða háskólarektors og að lokum söng háskólakórinn 3 lög. Þar sem að heimilið mitt er á hvolfi þá var ekki hægt að hafa neina veislu. Í staðinn fórum við hjónin út að borða og buðum mömmu minni og systir með okkur og áttum með þeim notalega kvöldstund. Það var frekar skrýtin tilfinningin þegar ég var allt í einu mætt við útskriftina mína og tók við skírteininu mínu og tók í hönd deilarforseta og háskólarektors, en góð var hún og ég vægast sagt himinlifnandi með þennan árangur. Í gegnum huga mér runnu minningar frá þessum tíma, auðmýkt og þakklæti fyrir skemmtilegar stundir og allan þann stuðning sem ég hef notið frá manninum mínum og fjölskyldu og fyrir það hvað ég hef kynnst mikið af frábæru fólki, bæði kennurum og samnemendum. Ég er mjög lánsöm manneskja og þakka fyrir það, hjartans þakkir til ykkar allra sem hafa stutt mig og leyft mér að læra af ykkur.
Nú framkvæmdirnar á heimilinu ganga vel, mér líst vel á það sem búið er að gera og hlakka mikið til að geta flutt aftur heim til mín. Við vorum svo heppin að geta fengið að nota heimili stjúpbróður míns og konunnar hans og svo heimili systur minnar þar sem þau hafa verið á ferðalögum erlendis. Það var mjög kærkomið að komast í hrein rúm og hreint loft eftir að hafa verið rykmettuðu og ansi skítugu heimili. En nú er farið að síga á seinni hluta framkvæmdanna og fer að styttast í að við komumst aftur í hreiðrið okkar, en þar líður mér alltaf best Annars má nú segja að þetta sé búið að vera meira en full vinna að standa í þessu, margt sem þarf að huga að, endalausir snúningar og símhringingar og að reyna að halda þessum blessuðu iðnaðarmönnum við vinnu sína. En annars get ég nú ekki kvartað mikið, þeir eru að mestu leyti búnir að vera mjög iðnir og dulegir og hafa unnið sín störf að mikilli vandvirkni. Það er sennilegra að það sé mín óþolinmæði sem veldur því að mér finnst hlutirnir ekki ganga nógu hratt.
Ingólfur Páll byrjaði í sumarfríi í síðustu viku og er kominn á fullt í fótboltann eins og búast mátti við. Honum, líkt og mömmu hans líður best heima hjá sér og bíður hann því spenntur eftir því að komast heim sem fyrst. Pabbinn hefur alltaf meira en nóg að gera, enda vinsæll og góður tannlæknir, en verður nú örugglega feginn að komast í sumarfrí í júlí.
Segi bara bless í bili og vona að þið eigið góða helgi í veðurblíðunni sem leikið hefur við okkur síðustu daga og vikur.
Ragna Margrét
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.