14.1.2008 | 20:37
Skólinn að hefjast að nýju
Ótrúlegt en satt, jólafríið er búið og skólinn að byrja á morgunn!! Ég er sem sagt búin að vera að njóta þessara síðustu daga í fríinu mínu með því að gera jólahreingerningar á heimilinu, ha,ha, betra seint en aldrei. Ég kom greinilega endurnærð heim úr Kaupmannahafnarferðinni og er búin að vera á fullu að þrífa veggi og skápa síðan ég kom heim og er bara nokkuð ánægð með mig!! En núna er sem sagt sælunni að ljúka og skólinn og lesturinn hefst á fullu á morgunn......og það alveg á fullu því að ég byrja á því að lesa fyrir eitt próf sem ég ákvað að fresta vegna mikils álags og óheppilegrar próftöflu í desember. En annars er ég nú bara sátt við niðurstöður desemberprófanna, einkunnirnar voru frá 8 til og með 9 sem mér finnst nú bara nokkuð gott, sérstaklega með tilliti til þess að ég fékk flensuna í miðjum prófunum, svo að ég kvarta ekki. En núna hefst sem sagt lokaönnin mín í BA námi mínu í sálfræðinni og ég er verð með 16 einingar á henni, Skyn- og hugfræði, réttarsálfræði og BA-ritgerð en ég er mjög spennt að sjá hverjar niðurstöður þeirra könnunar verður. En ég ásamt skólasystur minni, henni Pálínu, er að skoða hvort að líkamleg hreyfing/virkni hefur áhrif á frammistöðu í námi. Ég hef eins og þeir sem til mín þekkja vita, mjög mikla trú á góðum áhrifum heilsusamlegs lífernis og hollrar hreyfingar og bind miklar vonir við að geta sýnt fram á jákvæð tengsl þess við námsárangur. Tilgáta okkar er sem sé sú að líkamleg virkni hafi góð áhrif á námsárangur með því að draga úr streitu og kvíða, sjáum til hvað kemur útúr þessu
Skrýtin tilfinning sem alltaf kemur yfir mann rétt áður en skólinn hefst. Ég upplifi alltaf einhverja sérkennilega blöndu af eftirvæntingu og örlitlum kvíða. Eftirvæntingu vegna þess að mér finnst námið skemmtilegt og áhugavert en í senn kvíða vegna þess að ég veit að það eru krefjandi tímar framundan og oft á tíðum gífurlegt álag sem skapar togstreitu við það hlutverk sem fylgir því að reyna að sinna móðurhlutverki og hjónabandi af bestu getu samhliða. En ég býst við að það sé að einhverju leyti vegna þess að maður vill sinna öllu 100% og það getur reynst illmögulegt.
Jæja, ætla að hætta núna og fara að horfa á landsleikinn í handbolta þar sem Ísland er að keppa við Tékkland í æfingaleik fyrir EM. En við fjölskyldan fórum á völlinn í gær og horfðum á fyrri leik þessara liða, alltaf janf hressandi og skemmtilegt að fara á landsleiki og upplifa stemmninguna, sérstaklega þegar Ísland vinnur eins og það gerði í gær
Ragna Margrét
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.