10.10.2008 | 21:56
Til hamingju með daginn elsku Isabella Joci
Hæ öll!
Já ég hef ekki verið dugleg að blogga undanfarið, einfaldlega alltof mikið að gera í skólanum sem hófst á fullu um mánaðarmótin ágúst-september. Það hefur verið gríðarlega mikið að gera, endalaus próf, verkefnaskil og fyrirlestrahald. En ég kvarta ekki því ég hef ótrúlega gaman af þessu og er líka ótrúlega heppin með skólafélaga. Einstaklega skemmtilegur og líflegur hópur þar á ferð og þakklát fyrir að eignast enn fleiri og nýja vini sem hafa áhuga á því sama og ég
Ég ætla bara að hafa þetta stutt. Langaði bara að óska henni Isabellu til hamingju með fyrsta afmælisdaginn, til hamingju með daginn elsku litli engillinn minn
Bloggar | Breytt 11.10.2008 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2008 | 19:56
Í skólann á ný
Halló elskurnar.
Já sumar er að hausti komið þó ótrúlegt sé og skólinn fer að hefjast aftur. Sumarið hefur verið hreint yndislegt fyrir okkur fjölskylduna. Framkvæmdirnar á heimilinu gengu vonum framar, meira og minna allt gekk samkvæmt áætlun og útkoman alveg frábær. Við höfðum ákveðnar skoðanir á því hvernig við vildum breyta heimilinu og það má segja að það hafi náðst að framkvæma það allt saman og ég er þvílíkt hamingjusöm með þetta allt saman.
Um mitt sumarið fórum við til Akureyrar þar sem Ingólfur Páll var að keppa í fótbolta. Það gekk svona upp og ofan hjá þeim, sigrar og ósigrar skiptust á en drengirnir skemmtu sér vel og liðsandinn góður og það er fyrir öllu. Eitt af því sem á eftir að fara í minningarbankann hjá honum sem ánægjuleg minning með æskufélögunum. Við fórum líka í rúmlega 2ja vikna ferð til Perú sem var alveg meiriháttar. Þar skoðuðum fornar Inka slóðir sem eru sannarlega eitt af undrum veraldarinnar, eitt af þeim fyrirbærum sem maður skilur ekki hvernig geta hafa orðið til. Náttúrufegurðin er mikil og það var upplifun í sjálfum sér að sjá Andes fjallgarðinn sem er alveg hreint magnaður, hvert sem litið var gnæfðu þessi risafjöll yfir manni og sjaldan hef ég fundið til eins mikillar smæðar. Fólkið þarna er ljúft og elskulegt og líka ótrúlega smávaxið, ég, þessi stóra kona eða þannig, var bara hávaxin þarna og var alveg að fíla það.
Eins ótrúlegt og það nú er þá er skólinn að hefjast hjá mér nk. mánudag. Ég finn til mikillar tilhlökkunar og eftirvæntingar en jafnframt til kvíða því nú er ég auðvitað að fara að takast á við framhaldsnám sem ég veit að verður mjög krefjandi og erfitt. En ég er ákveðin í því að njóta þess að takast á við þetta og vera ánægð og þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að halda áfram að læra það sem ég hef svo mikinn áhuga á
Jæja ætla að stoppa núna og fara að kíkja á skólabækurnar mínar. Heyrumst fljótt!
Ragna Margrét
Bloggar | Breytt 28.8.2008 kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2008 | 21:02
Útskrifuð
Já ég útskrifaðist sem sagt síðastliðna helgi. Útskriftin fór fram í Laugardalshöll í sól og falleg veðri. Um var að ræða fjölmennustu útskrift í sögu Háskóla Ísland og voru útskrifaðir stúdentar tæplega 1100 talsins, hvorki meira né minna. Það tók því langan tíma að útskrifa allan þennan skara, síðan tók við hátíðleg ræða háskólarektors og að lokum söng háskólakórinn 3 lög. Þar sem að heimilið mitt er á hvolfi þá var ekki hægt að hafa neina veislu. Í staðinn fórum við hjónin út að borða og buðum mömmu minni og systir með okkur og áttum með þeim notalega kvöldstund. Það var frekar skrýtin tilfinningin þegar ég var allt í einu mætt við útskriftina mína og tók við skírteininu mínu og tók í hönd deilarforseta og háskólarektors, en góð var hún og ég vægast sagt himinlifnandi með þennan árangur. Í gegnum huga mér runnu minningar frá þessum tíma, auðmýkt og þakklæti fyrir skemmtilegar stundir og allan þann stuðning sem ég hef notið frá manninum mínum og fjölskyldu og fyrir það hvað ég hef kynnst mikið af frábæru fólki, bæði kennurum og samnemendum. Ég er mjög lánsöm manneskja og þakka fyrir það, hjartans þakkir til ykkar allra sem hafa stutt mig og leyft mér að læra af ykkur.
Nú framkvæmdirnar á heimilinu ganga vel, mér líst vel á það sem búið er að gera og hlakka mikið til að geta flutt aftur heim til mín. Við vorum svo heppin að geta fengið að nota heimili stjúpbróður míns og konunnar hans og svo heimili systur minnar þar sem þau hafa verið á ferðalögum erlendis. Það var mjög kærkomið að komast í hrein rúm og hreint loft eftir að hafa verið rykmettuðu og ansi skítugu heimili. En nú er farið að síga á seinni hluta framkvæmdanna og fer að styttast í að við komumst aftur í hreiðrið okkar, en þar líður mér alltaf best Annars má nú segja að þetta sé búið að vera meira en full vinna að standa í þessu, margt sem þarf að huga að, endalausir snúningar og símhringingar og að reyna að halda þessum blessuðu iðnaðarmönnum við vinnu sína. En annars get ég nú ekki kvartað mikið, þeir eru að mestu leyti búnir að vera mjög iðnir og dulegir og hafa unnið sín störf að mikilli vandvirkni. Það er sennilegra að það sé mín óþolinmæði sem veldur því að mér finnst hlutirnir ekki ganga nógu hratt.
Ingólfur Páll byrjaði í sumarfríi í síðustu viku og er kominn á fullt í fótboltann eins og búast mátti við. Honum, líkt og mömmu hans líður best heima hjá sér og bíður hann því spenntur eftir því að komast heim sem fyrst. Pabbinn hefur alltaf meira en nóg að gera, enda vinsæll og góður tannlæknir, en verður nú örugglega feginn að komast í sumarfrí í júlí.
Segi bara bless í bili og vona að þið eigið góða helgi í veðurblíðunni sem leikið hefur við okkur síðustu daga og vikur.
Ragna Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2008 | 19:38
Fékk "já", húrra!!!
Halló halló!
Já,já,já, ég fékk s.s jákvætt svar og er á leiðinni í framhaldsnám í sálfræði og allt stefnir í það að ég sé á leiðinni að verða sálfræðingur,he,he, ótrúlegt en satt!!! Svarið kom á fimmtudaginn síðasta og var ég voða glöð og fegin, var orðin langeygð eftir svari og örlítilð stress var farið að gera vart við sig þar sem biðin var orðin löng og ég farin að frétta af fólki sem búið var að fá svar og vissi því sem var að plássum var farið að fækka. En ég komst inn og er alsæl og finn til eftirvæntingar og eilítils kvíða, því ég geri mér grein fyrir að nú tekur við enn strembnara nám og mikið álag. Ég er jafnframt þakklát fyrir að fá tækifæri til að halda áfram að læra það sem ég hef áhuga á og fyrir að hafa komist áfram í fyrstu tilraun
Annars er búið að vera nóg að gera hérna. Þessa stundina sit ég gólfinu og blogga því húsið er svo gott sem tómt. Framkvæmdir hófust s.s í gær og það með hvelli, hingað mættu 6 manns um morguninn og ég sá bara eldhúsinnréttinguna mína hverfa, ásamt gólfefnum,veggflísum, arni og veggjum með tilheyrandi ryki. Það er heldur betur búin að vera vinna við að tæma húsið og nú búum við frekar frumstæðar aðstæður þar sem borðað er af pappadiskum og setið á gólfi við að horfa á sjónvarp o.þ.h., en þetta er þó fyrst og fremst spennandi og ég get ekki beðið eftir að sjá útkomuna og er þess fullviss að heimilið okkar eigi eftir að verða stórglæsilegt og fallegt þegar þetta verður allt yfirstaðið.
Ætla ekki að skirfa meira núna, er hálf lúin eftir amstur vikunnar og er að hugsa um að leggjast bara í leti!!
Ragna Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2008 | 21:06
...enn beðið eftir svari.
Góða kvöldið elskurnar!
Jæja ég er nú aðeins farin að venjast þvi að vera ekki skólanum en verð að viðurkenna að ég sakna þess mjög mikið að vera ekki í skólanum og ég sakna þess mikið að vera ekki að læra og hitta ekki skólafélagana. Þetta kemur mér raunar skemmtilega á óvart en það er alveg ný tilfinning fyrir mér að sakna skólans og námsins og ætli það segi ekki bara mest um það hve mikinn áhuga ég hef á því sem ég er að læra. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá er ég ekki búin að fá svar enn við því hvort ég fæ inni í framhaldsnámið og það er sama hvað ég reyni mikið að hugsa ekki um það þá leitar það alltaf á mig, mörgum sinnum í dag og tilfinningin er svona blanda af eftirvæntingu og kvíða. En þetta ætti nú að fara að skýrast á allra næstu dögum.
En ég hef svo sem haft í nógu að snúast frá því að skólanum lauk. Ég er búin að vera að pakka niður allri búslóðinni svo hægt sé að hefjast handa við breytingarnar á heimilinu og það er nú bara heilmikið verk skal ég ykkur segja. Ég er þegar búin að pakka niður í 55 kassa takk fyrir og það er ekki allt búið enn úff!! Það er hreint alveg ótrúlegt hvað manni tekst að safna að sér miklu dóti, en nú verður hreinsað til. Síðasta helgi fór því að hluta til í að pakka niður en á sunnudaginn var fótboltamót hjá Ingólfi Páli (aldrei þessu vant) og mamman stóð sjoppuvaktina þar sem reynt var að safna peningum fyrir Akureyrarmótið sem verður í sumar. Ingólfur Páll stóð sig vel að venju og skoraði 3 mörk .
Jæja, ætla að stoppa núna en læt heyra fljótt í mér.
Ragna Margrét
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2008 | 14:23
BA-próf í höfn
Halló halló halló!!
Skólinn er sem sagt búinn hjá mér og BA-prófið er í höfn. Ótrúlega skrýtin tilfinning að náminu sé lokið. Mér finnst eins og það hafi aðeins verið fyrir nokkrum vikum sem ég var ákvað að gefa sálfræðinni séns, satt segja hálf smeyk um að ég ætti ekki eftir að geta ráðið við þetta nám þar sem ég hafði heyrt mikið um,þ.e hve erfitt það væri og hve hátt hlutfall nemenda sem hefja nám í sálfræði ná ekki að ljúka því. Nú þrem árum seinna sit ég hér, búin með námið og það með nokkuð góðum árangri og tilfinningin er hálf súrrealísk. Þegar ég lít til baka þá hefur þetta verið ótrúlega skemmtilegur og þroskandi tími en jafnfram gífurlega krefjandi og það hafa komið all margar stundir sem mér hefur fundist ég vera að drukkna í álagi og vinnu. Að fara í gegnum svona akademískt nám einfaldlega breytir manni sem persónu og sýn mín á lífið er önnur en hún var áður. Í dag er ég aftur á móti ánægð og sæl með að hafa lokið þessu námi og þakklát fyrir skemmtilegan tíma og fyrir að hafa kynnst fullt af skemmtilegu og ótrúlega duglegu fólki í leiðinni. Held að það eigi eftir að taka smá tíma að venjast þvi að vera ekki að lesa og vinna, maður kann varla að vera ekki að læra og satt segja upplifir maður smá tómleikatilfinningu.Það verður nú sennilega fljótt að breytast. Ég ætla mér að taka nokkra daga í slaka mér og hvíla mig eftir hressilega törn, en síðan mun ég bretta upp ermar og taka til við þær breytingar sem til stendur að gera á heimilinu. En ég bíð líka spennt eftir því að fá fréttir af því hvort að ég mun komast inní framhaldsnámið, reyni að vera bjartsýn en raunsæ, það er auðvitað mikið af fólki að sækja um og ég efast ekki um að mikið af því er duglegt og hæft fólk sem á ekki síður möguleika en ég, en þetta mun koma í ljós á næstu vikum og ég verð ekki lengi að dreifa fréttunum þegar þær berast, þ.e.a.s. ef þær verða jákvæðar.
Jæja, hef þetta stutt í dag. Ætla njóta þess að eiga vera komin í frí og þess að geta slakað á.
Ragna Margrét
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2008 | 20:33
Próflestur eina ferðina...
Góða kvöldið.
Þá er próflesturinn hafinn eina ferðina enn, mér finnst einhvern veginn eins og ég sé alltaf vera í prófum! En ætli það lýsi þvi ekki bara hve hratt tíminn líður og er ekki sagt að tíminn líði hratt þegar maður er að gera eitthvað skemmtilegt og manni líður vel? En í þetta sinn eru það aðeins tvö próf sem standa fyrir dyrum og ég er búin óvenju snemma í prófum þetta vorið og verð komin í sumarfrí þann 6.mai næstkomandi. En ég kýs að líta á þetta sem sumarfrí frá náminu því ég held stíft í þá von að ég muni komast inní framhaldsnámið. Trúi því allavega þar til annað kemur í ljós
Um síðustu helgi fórum við til Kaupmannahafnar eins og ég var búin að segja ykkur að til stæði. Það var auðvitað bara æðislegt að hitta alla fjölskylduna og maður finnur það best þá hve mikið maður saknar þess að hafa ekki fjölskylduna sína ekki hjá sér. En einmitt þess vegna verða endurfundirnir þeim mun sætari og við nutum þess að hitta börnin, Hildigunni, Arngunni og Hall. Börnin dafna vel og allir virðast vera ánægðir í því sem þeir eru fást við og þá getur maður ekki verið glaður.
Þegar heim var komið tók stressið aftur við og ég og Pálína lögðum lokahönd á BA-verkefnið okkar og náðum að skila því inn áður en að próflesturinn byrjaði. Nú bíðum við bara eftir að fá endurgjöf á verkefnið en þá gætum við þurft að gera einhverjar endurbætur á því áður það fer í endanlegt mat og einkunnagjöf. Þreytan er eilítið farin að segja til sín og ég get ekki sagt annað en að mig hlakki til að fá smá pásu frá bókum og lestri.
Ætla að láta þetta dug i bili og fara að hvíla mig eftir langa lestrartörn í dag.
Hafið það sem best,
Ragna Margrét
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 20:59
Kennslunni að ljúka, ótrúlegt en satt!!
Já gott og blessað kvöldið!
Það er nú orðið heldur betur langt síðan að ég ritaði hér síðast og var eiginlega búin að gleyma því að ég væri með bloggsíðu í gangi, he,he...svona hefur maður mikið að gera. En sem sagt, það er farið sjá fyrir endann á skólanum og ótrúlegt en satt, þá er ég fara ljúka BA-náminu mínu Önnin hefur vægast sagt verið fljót að líða og tíminn hefur eiginlega ekki farið í neitt annað en lestur. Það er auðvitað búin að vera gífurlega mikil vinna og tími sem hefur farið í BA rannsóknina okkar. Við mættum ýmsum hindrunum á leiðinni sem tóku soldið á taugarnar og á tímabili var stressið að ná yfirhöndinni og kvíði sem ég hef ekki áður upplifað í skólanum. En styttir upp um síðir eins og sagt er og núna er skýrslan svo gott sem tilbúin og bíðum við bara eftir loka "commentum" frá kennurunum okkar og svo verður verkinu skellt i prentun og bundið inn, hjúkkkatt!! En á meðan á yfirlestri stendur þá sit ég nú ekki auðum höndum og vinn nú að ritgerð skila og fyrirlestri sem ég ætla að halda næstkomandi föstudag og örfáum tímum síðar ætla ég að stökkva uppí flugvél ásamt fjölskyldunni minni og fljúga til Kaupmannahafnar. Þar ætlum við að hitta nýjan fjölskyldumeðlim sem Hildigunnur og Hallur voru að eignast og hefur hlotið nafnið Jóhanna Freyja og get ég ekki beðið eftir að fáa sjá og knúsa hana Hönnu Freyju litlu og auðvitað hann Grím minn líka. Þar verða miklir fagnaðarfundir því ásamt því að hitta Hildigunni og fjölskylduna hennar þá ætlar Arngunnur að koma með hana Ísabellu sína frá London til að hitta okkur öll, gaman, gaman!!
Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni. Lífið gengur sinn vanagang. Ingólfur Páll er alltaf í skólanum sínum og íþróttunum á fullu, var m.a. að keppa í fótbolta við ÍBV síðastliðinn sunnudag. Það gekk rosa vel hjá strákunum, þeir unnu 7-2 og Ingólfur Páll skoraði 2 stórglæsileg og algjörlega óverjandi mörk, flott hjá þér Ingólfur Páll!!
Nú svo er ég bara mjög spennt yfir því sem stendur fyrir dyrun á heimilinu, en við ætlum fara að drífa í heilmiklum framkvæmdum á heimilinu, stækka eldhúsið okkar,baðherbergi og laga þvottahús o.fl Verður skemmtileg tilbreyting frá langtíma setum og lestri að fara útí slíkar framkvæmdir.
Jæja læt þetta duga. Get vonandi sagt góðar fréttir af því hvernig skólinn hefur gengið næst, stefni auðvitað á góðar einkunnir í prófunum tveim sem ég tek í vor og fyrir BA-rigerðina. Nú og svo er ég með krosslagða fingur, en á morgun mun ég skila inn umsókn minni fyrir framhaldsnám í sálfræðinni og get ekki annað en vonað það besta en samkeppnin er mikil og aðeins þeir bestu komast inn
Bless í bili og hafið það sem best,
Ragna Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2008 | 21:02
BA-verkefnið komið í fullan gang, gaman, gaman!!
Góðan og blessaðan daginn!
Hvað segið þið gott elskurnar? Það orðið soldið langt síðan að ég ritaði hér síðast sem segir víst mest til um það að það er nóg að gera á þessum vígstöðvum eins og venjulega. Skólinn er kominn á fullt aftur. Ég sem hélt að þessi önn yrði aðeins "rólegri" en sú síðasta þar sem ég er með aðeins færri einingar en ég er s.s enn að læra það, að það er ekkert sem heitir rólegheit þegar maður er að nema sálfræði við Háskóla Íslands!! Eins og titillinn á þessari færslu gefur til kynna þá er BA-verkefnið að komast á fullt skrið. Nú stendur yfir mikil heimildarleit sem er alveg óhemju tímafrekt ferli, við þurfum að leita að endalaust mörgum rannsóknargreinum og lesa þær allar til finna hvað er bitastætt og hvað hentar fyrir okkar verkefni sem þýðir að helmingnum af þeim greinum sem við finnum verður kastað til hliðar sem ónothæfum. Nú, svo erum við að fara í það slá inn öll þau gögn sem við söfnuðum saman inní tölfræðiforrit til tölfræðilegrar greiningar, en um er að ræða allmarga spurningalista sem innihalda misjafnlega margar spurningar sem lagðar voru fyrir ca 170 manns og það var gert tvisvar sinnum svo að þið getið ímyndað ykkur hverskonar handavinna bíður okkar áður en við getum hafist handa við að reikna útúr þessu öllu saman. Eftir að við verðum svo búnar með tölfræðigreiningar og heimildarsöfnun og lestur þá mun hin eiginlega ritgerðarsmíð hefjast. Þetta er auðvitað langviðmesta verkefni sem ég hef tekist á við en um alveg gríðarlega ögrandi, lærdómsríkt og umfram allt skemmtilegt ferli að fara í gegnum allt þetta rannsóknarferli. Við erum stórhuga, metnaðurinn er mikill og við stefnum auðvitað á að fá háa einkunn fyrir þetta verkefni og þá þýðir ekkert annað en að gefa sig alla í þetta. En það er auðvitað fleira sem hangir á spýtunni, ég hef fullan hug á að reyna að komast að í framhaldsnám í haust og til þess að eiga möguleika á inngöngu þýðir ekkert annað en að reyna vera með sem hæsta meðaleinkunn.
Ingólfur Páll var að keppa í handbolta í dag og gekk það svona upp og ofan hjá liðinu hans, sigrar og tap svona eins og gengur í þessum íþróttum. Hann stóð sig þó vel sjálfur og mér finnst gaman að sjá ákveðnina hjá honum og oftar en ekki stigur hann upp og fer fyrir sínum mönnum þegar mótlætið verður meira. Flottur strákur!!
Nú, við mæðginin erum ein heima, pabbinn er kominn og farinn síðan ég skrifaði síðast og er s.s aftur floginn til Ameríku. Hann er núna staddur í LA í sól og 25 stiga og ég get nú ekki annað sagt en að ég væri til að vera stödd þar með honum í stað þess að vera í þessu endalausa vonskuveðri hérna á klakanum. Hann ætlar svo að koma heim á þriðjudaginn en það verður stutt stopp þar sem hann mun aftur halda af landi brott á fimmtudaginn og í það skiptið til Swiss en svo verður pása á þessu flakki hjá honum og ég verð hún að viðurkenna að ég verð því nú bara fegin.
En nú ætla ég að stoppa og fara aðeins að slaka á yfir sjónvarpinu, en á morgun ætla ég að vakna snemma og nýta daginn vel í lestur.
Eigið góða helgi, það sem eftir er af henni
Ragna Margrét
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 18:04
Að komast í gang..
Halló halló..
Var að koma heim úr prófi í Neyslusálfræði sem ég hafði frestað í desember. Verð nú að viðurkenna að það var soldið erfitt að byrja önnina á lokaprófi og lesturinn varð nú eiginlega ekki eins og best hefði verið á kosið, en þó las ég nokkuð vel og prófið er afstaðið og mér gekk bara nokkuð vel, held ég, vona allavega það besta þar til annað kemur i ljós. En allavega þá lítur út fyrir að ég mér hafi tekist að klára 18 einingar á síðustu önn með nokkuð góðum árangri og ég er nú bara nokkuð stolt af því, en fyrir þá sem ekki vita það, þá eru 15 einingar fullt nám. Ingólfur Páll er líka búinn að vera í prófum alla síðustu viku, svo að ég hef eiginlega skipst á að lesa fyrir mitt próf og fyrir hans próf og ég vona að honum hafi gengið vel í sínum prófum því hann var duglegur að læra.
Það hefur reyndar verið óvenju mikið að gera við sjónvarpsgláp undanfarið á þessu heimili sem venjulega horfir ekki mikið á sjónvarp. Fjölskyldan öll hefur ótrúlega gaman af því að horfa á handbolta og því var EM veisla fyrir okkur og reyndum við að horfa á sem flesta leiki. Því miður gerðu "strákarnir okkar" ekki góða ferð til Noregs í þetta skiptið en við horfðum nú samt. Ekki laust við að sálfræðineminn reyni að ráða í það hvað er að gerast í huga leikmanna og hvernig þeim líður þegar mótlætið er með þessu móti. Nú, ekki hefur verið minna fjör í borgarmálunum hérna höfuðborginni okkar og maður má hafa sig allan við að muna hver er borgarstjóri
Annars erum við mæðginin bara tvö í kotinu núna, þar sem pabbinn er floginn til USA, hann verður nú reyndar ekki mikið heima næstu vikurnar þar sem hann er að fara 3 ferðir á skömmum tíma og kemur bara heim rétt í mýflugmynd á milli. En við höfum það nú bara gott hérna heima og það er líka alltaf nóg að gera hjá okkur báðum svo að tíminn er fljótur að líða, þó að við söknum pabbans alltaf þegar hann er burtu. En í kvöld ætlum við bara hafa það kósy, erum búin að ná okkur í DVD mynd og kaupa smá nammi, svo að það verður bara notalegt kvöld hjá okkur mæðginum
Hafið það sem best þar til næst...
Ragna Margrét
Bloggar | Breytt 30.1.2008 kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)